Ártalið 2030 var misritað á tveimur stöðum í upphaflegri tilkynningu.
Hér fer leiðrétt útgáfa.
----------
Miklar fjárfestingar eru framundan hjá fyrirtækjunum innan samstæðu Orkuveitunnar. Samkvæmt samandreginni fjárhagsspá fyrir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix og móðurfélag Orkuveitunnar nema þær samtals 245 milljörðum króna á tímabili spárinnar. Hún nær til áranna frá 2026 til og með 2030. Að jafnaði nema því áætlaðar árlegar fjárfestingar tæpum 50 milljörðum króna.
Samkeppnishæfni samfélagsins efld
„Orkuveitan vill efla samkeppnishæfni íslensks samfélags,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar. „Við ætlum að afla aukinnar orku fyrir atvinnulíf og heimili, tengja fleiri heimili okkar umhverfisvænum veitukerfum og halda áfram að þróa þau og uppfæra með nýrri tækni,“ bætir Sævar við. Hann bendir einnig á að í fjárhagsspánni sé hugað að viðnámsþrótti samfélagsins gagnvart loftslagsvánni og fleiri ógnum.
Sævar tiltekur líka ný tækifæri sem séu að skapast. „Við fáum nú sífellt fleiri fyrirspurnir frá aðilum sem hafa áhuga á að byggja upp framleiðslu á Íslandi af því hér sé orkan græn og tækifæri til að binda með varanlegum hætti kolefnislosun frá væntanlegum vinnsluferlum. Við eigum á nokkrum stöðum á landinu vísi að grænum iðngörðum sem gætu orðið vettvangur slíkrar verðmætasköpunar,“ segir Sævar. „Við bindum vonir við að væntanleg atvinnustefna stjórnvalda styðji við að hugmyndir af þessu tagi verði að veruleika. Þar með nýtist okkar samkeppnisforskot og sjálfbærni íslensks atvinnulífs eflist,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar.
Verulegur vöxtur
Í spánni, sem inniheldur einnig útkomuspá fyrir yfirstandandi ár, er meðal annars gert ráð fyrir að;
Árlegar tekjur vaxi úr 70,9 ma.kr. í útkomuspá 2025 í 96,0 ma.kr. árið 2030, eða um 35%. Árlegur rekstrarkostnaður vaxi úr 30,9 ma.kr. í 35,6 ma.kr. eða um 15%. Handbært fé frá rekstri vaxi úr 32,2 ma.kr. samkvæmt útkomuspá 2025 í 42,1 ma.kr. 2030, eða um 31%. Eigið fé Orkuveitunnar vaxi úr 262 ma.kr. í árslok 2024 í 341 ma.kr. í árslok 2030, eða um 30%.
Stjórn Orkuveitunnar samþykkti spána á fundi sínum í dag en áður höfðu stjórnir dótturfélaga innan samstæðunnar afgreitt spá fyrir viðkomandi félag. Fjárhagsspáin fer til umfjöllunar sem hluti fjárhagsspár samstæðu Reykjavíkurborgar.
„Framúrskarandi“ Orkuveita
Í nýju UFS-áhættumati matsfyrirtækisins Reitunar á Orkuveitunni fær samstæðan einkunnina A3 eða framúrskarandi. Fyrirtækið beitir matslíkani sínu á umhverfisþætti starfseminnar, félagslega þætti og stjórnarhætti. Í viðfestri samantekt niðurstaðna segir: „Orkuveita Reykjavíkur stendur afburða vel í UFS mati Reitunar líkt og síðustu ár og heldur í við auknar kröfur sem eru gerðar í þessu mati.“
Orkuveitan er útgefandi grænna skuldabréfa og telur sig njóta talsvert hagstæðari fjármögnunar vegna frammistöðu sinnar í sjálfbærnimálum.
Tengiliður:
Snorri Hafsteinn Þorkelsson
framkvæmdastjóri fjármála
[email protected]
Viðhengi
Fjárhagsspá Orkuveitunnar 2026-2030 með greinargerðOrkuveitan - UFS áhættumat Reitunar 2025
Leiðrétt: Fjárhagsspá Orkuveitunnar 2026-2030 | Um 50 milljarða fjárfestingar á ári
Published 1 month ago
Oct 7, 2025 at 8:36 AM
Positive
Auto