Hagnaður Rarik ohf. var 1,5 milljarðar króna.
Félagið sýnir sterka rekstrarniðurstöðu á fyrri hluta ársins með verulegum tekju- og afkomuvexti, auknu handbæru fé og traustum efnahag.
Helstu lykiltölur (í millj. kr.)
Lykiltala1.1–30.6 20251.1–30.6 2024Rekstrartekjur14.09511.778EBITDA4.8343.283Rekstrarhagnaður (EBIT)2.9371.571Hagnaður eftir skatta1.494690Handbært fé frá rekstri3.6942.364Fjárfestingar3.5133.131Eiginfjárhlutfall63,30%62,90%
Hagnaður Rarik samstæðunnar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025 nam 1.494 milljónum króna, samanborið við 690 milljónir króna á sama tímabili árið 2024. Þetta jafngildir tæplega tvöföldun hagnaðar á milli ára. Helstu breytingar á milli ára eru auknar tekjur af dreifingu raforku og jákvæð afkoma hjá Orkusölunni, en hærri flutningsgjöld og raforkukaup samstæðunnar skýra að mestu hærri rekstrargjöld.
Rekstrartekjur jukust um 19,7% frá fyrra ári og námu 14,1 milljarði króna (2024: 11,8 ma.kr.). Aukningin skýrist einkum af hærri tekjum í dreifingu raforku, þar sem verðskrárbreytingar Landsnets stóðu fyrir um helmingi hækkunarinnar. Þá hafði einnig jákvæð áhrif að enginn orkuskortur var á tímabilinu, sem leiddi til aukinnar sölu á ótryggri orku. Tekjur af raforkusölu hækkuðu umtalsvert á milli ára.
Rekstrargjöld námu 11,2 milljörðum króna (2024: 10,2 ma.kr.), sem er 9,3% aukning milli ára. Stærsti hluti hækkunarinnar er til kominn vegna aukins flutningskostnaðar frá Landsneti og orkukaupa frá Landsvirkjun. Þessir liðir námu samtals um 4,7 milljörðum króna á tímabilinu. Annar rekstrarkostnaður hækkaði einnig, einkum vegna aukins viðhalds og bilanaviðgerða.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4,8 milljörðum króna, sem er 47% aukning frá fyrra ári (2024: 3,3 ma.kr.) og jafngildir 34,3% af tekjum. Handbært fé frá rekstri nam 3,7 milljörðum króna, samanborið við 2,4 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) á fyrstu sex mánuðum ársins nam 2,9 milljörðum króna, sem er tæplega tvöföldun frá sama tímabili á síðasta ári (2024: 1,6 ma.kr.). Fjármagnsliðir námu 1,1 milljarði króna (2024: 0,7 ma.kr.) og vegur þar þyngst gengistap á skuldabréfaeign.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar í lok júní 104,5 milljörðum króna og jukust um 1,2 milljarða króna frá áramótum. Heildarskuldir námu 38,4 milljörðum króna, en eigið fé var 66,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í lok júní var því 63,3%, samanborið við 62,9% í árslok 2024.
Fjárfestingar á tímabilinu námu 3,5 milljörðum króna, þar af um 3 milljarðar í uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins.
Rarik heldur áfram að styðja við orkuskipti og styrkingu innviða með fjárfestingum í dreifikerfinu. Hlutfall jarðstrengja í kerfinu er nú yfir 83% og stefnt er að áframhaldandi jarðstrengjavæðingu og uppbyggingu til að mæta auknum afhendingarkröfum.
Horfur fyrir árið 2025 eru jákvæðar. Samstæðan stendur frammi fyrir umfangsmiklum fjárfestingum og því er mikilvægt að viðhalda sterkum rekstrarárangri. Fjárfestingaáætlun ársins gerir ráð fyrir um 8,8 milljörðum króna í fjárfestingar.
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri:
„Árangur fyrri hluta ársins staðfestir að félagið stendur á traustum grunni. Bættar aðstæður á raforkumarkaði spila þar inn í en einnig hafa verið tekin stór skref í að bæta rekstur og auka skilvirkni kerfisins, meðal annars með nýjum tæknilausnum og njótum við afrakstursins. Við höfum tvöfaldað hagnað milli ára og styrkt handbært fé, sem eykur svigrúm til áframhaldandi fjárfestinga í orkuskiptum og kerfisuppbyggingu. Þetta eru lykilskref til að tryggja örugga orkuafhendingu til framtíðar.“
Yfirlýsing stjórnar og forstjóra
Árshlutareikningur Rarik fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025 var samþykktur á fundi stjórnar þann 21. ágúst 2025. Árshlutareikningurinn er hvorki endurskoðaður né kannaður af endurskoðendum félagsins.
Að mati stjórnar og forstjóra gefur uppgjörið glögga mynd af rekstrarárangri, efnahagsstöðu og áhættu félagsins.
Nánari upplýsingar veitir Elísabet Ýr Sveinsdóttir ([email protected]), framkvæmdastjóri fjármála Rarik.
Viðhengi
Fréttatilkynning til Kauphallar Íslands - Árshlutauppgjör Rarik ohf 2025Árshlutareikningur jan-júní 2025 Rarik ohf
Árshlutauppgjör Rarik ohf.
Published 2 måneder siden
Aug 21, 2025 at 4:09 PM
Neutral
Auto