Afkoma Ljósleiðarans á fyrstu sex mánuðum ársins var talsvert betri en á sama tíma í fyrra. Tap varð þó af rekstrinum sem nam 328,5 mkr. en var 480,2 mkr. á fyrri helmingi síðasta árs. Fyrirtækið, sem er alfarið í íslenskri eigu Orkuveitunnar, er að rétta reksturinn af eftir mikið fjárfestingaskeið sem skilað hefur tugþúsundum heimila og þúsundum fyrirtækja bestu fáanlegu nettengingum.
Tekjur jukust um 6,8% á milli ára og námu 2.958 mkr. á fyrri hluta yfirstandandi árs. Rekstrargjöld drógust saman frá fyrra ári um 1,4%. EBITDA framlegð jókst um 13,8% milli ára og nam 1.706,4 mkr. á fyrri hluta ársins, samkvæmt árshlutareikningi, könnuðum af endurskoðendum, sem stjórn Ljósleiðarans samþykkti í dag.
Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir niðurstöðuna viðunandi og í takti við áætlanir. „Við höfum verið að skipta um gír í rekstrinum og með okkar frábæra starfsfólki og stjórnendum hefur tekist í sameiningu að draga úr rekstrarkostnaði á sama tíma og tekjur hafa aukist og þjónustan verið afar traust,“ segir Einar.
„Fjárfestingar Ljósleiðarans hafa aukið lífsgæði fólks og samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi. Í okkar starfsemi er ör þróun eins og öllu því sem tengist netinu og gagnaflutningum. Þar hefur Ljósleiðarinn ekki látið sitt eftir liggja. Markmiðið er að fólk geti verið áhyggjulaust yfir gæðum sinnar tengingar. Hún sé nægilega hröð en kosti ekki óþarflega mikið,“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Tengiliður:
Einar Þórarinsson
framkvæmdastjóri
[email protected]
Viðhengi
Árshlutareikningur Ljósleiðarans 30.06.2025
Rekstrarafkoma Ljósleiðarans batnar
Published 2 måneder siden
Aug 22, 2025 at 10:41 AM
Neutral
Auto