Jákvæð afkoma og sterkur rekstur

Published 2 måneder siden Negative
Jákvæð afkoma og sterkur rekstur
Auto
Árshlutareikningur Kópavogsbæjar 2025 var lagður fram í bæjarráði Kópavogs í morgun, fimmtudaginn 28. ágúst.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Kópavogsbæjar er jákvæð um 599 milljónir en gert hafði verið ráð fyrir rekstrarhalla upp á 228 milljónir króna. Afkoma bæjarins er því betri en áætlað hafði verið um sem nemur 827 milljónum króna. Kópavogsbær er í úthlutun á nýjum lóðum í efri byggðum Kópavogs og er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdir fari að hefjast. Lóðaúthlutun fer fram í nokkrum hlutum og koma áhrif þess að hluta til fram í uppgjöri þessu. Fjármagnsliðir hafa neikvæð áhrif á uppgjör en verðbólga og vextir eru heldur hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun bæjarins.

„Rekstur Kópavogsbæjar er áfram sterkur þrátt fyrir þráláta verðbólgu og háa vexti. Afkoman er 830 milljónum króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá er verulegt styrkleikamerki að veltufé frá rekstri sé rúmlega 1,7 milljarður króna og endurspeglar það svigrúm sem reksturinn gefur á fyrstu sex mánuðum ársins til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána. Heildarskuldir að undanskildum reiknuðum lífeyrisskuldbindingum eru að lækka um 120 milljónir króna þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir í bæjarfélaginu. Á föstu verðlagi eru heildarskuldir að lækka. Ráðist var í hagræðingaraðgerðir fyrr á árinu til að mæta kjarasamningum og munu þær skila sér af meiri þunga á síðari hluta ársins. Mikilvægt er að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins og mun það takast með ábyrgri og góðri fjármálastjórn.“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Samkvæmt uppgjörinu er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 276 milljónir króna á fyrri helmingi ársins 2025 en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarhalla að fjárhæð 304 milljónir króna. Í sögulegu samhengi falla 47 – 49% af skatttekjum bæjarins til á fyrri helmingi ársins og 51-53% á þeim seinni.

Veltufé frá rekstri samstæðu er rúmlega 1,7 milljarðar en framlegð samstæðu er tæplega 4,1 milljarður á misserinu, eða 13,5% af tekjum samstæðunnar, en 3,2 milljarðar og 10,7% ef framlag til lífeyrisskuldbindinga er talið með sem breytilegur kostnaður.

Vextir og verðbólga eru hærri en gert hafði verið ráð fyrir á fyrri hluta árs og innborganir á viðskiptakröfur hafa dregist meira en áætlað var, því eru fjármagnsgjöld samstæðunnar 380 milljónum króna hærri en áætlað hafði verið. Á móti kemur að bærinn hefur úthlutað byggingarlóðum á árinu 2025 og er tekið tillit til þess í þessu uppgjöri. Lóðagjöld að fjárhæð 1,3 milljarðar króna eru tekjufærð en það er tekjufærsla vegna úthlutaðra lóða þar sem búið er að þinglýsa lóðaleigusamningum og lóðin þar með komin á nafn nýs lóðarhafa. Stofnfjárfestingar á tímabilinu voru um 4,4 milljarðar og munar þar mestu um byggingu nýs Barnaskóla Kársness sem tók til starfa í upphafi vikunnar. Heildarskuldir samstæðunnar hækka um 314 milljónir króna á tímabilinu, en þar af hækkar reiknuð lífeyrisskuldbinding um rúmar 430 milljónir króna. Heildarskuldir samstæðunnar eru því að lækka á föstu verðlagi.

Árshlutareikningurinn sem nær yfir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2025 er óendurskoðaður og ókannaður en gerður í samræmi við lög og reglugerðir, en þó þannig að ekki eru samdar sérstakar skýringar við hann aðrar en samandregin greinargerð.

Árshlutareikningurinn er notaður til að kanna hvernig rekstur hefur verið að þróast á árinu og hann myndar grunn að útkomuspá bæjarins fyrir árið 2025 sem er grunnur að fjárhagsáætlun næsta árs.

Viðhengi

KOP-6 mánaðauppgjör - 30-06-2025