Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A+ lánshæfiseinkunn Íslands með stöðugum horfum.
Lánshæfiseinkunn Íslands endurspeglar mikla landsframleiðslu á mann og mikinn sögulegan hagvöxt samanborið við önnur vestræn ríki, auk traustrar stofnanaumgjarðar og heilbrigðrar efnahags- og fjármálastefnu. Þættir sem halda aftur af einkunninni eru eftir sem áður þær sveiflur sem einkenna íslenska hagkerfið, sem er lítið og opið og viðkvæmt fyrir alþjóðlegri þróun, svo sem áhættu í alþjóðamálum, deilum um alþjóðaviðskipti, sveiflukenndum viðskiptakjörum og áhættu tengdri náttúruvá. Smæð efnahagslífsins takmarkar einnig nokkuð skilvirkni hagstjórnar og peningastefnu vegna áhrifa ytri þátta sem liggja utan áhrifasviðs stjórnvalda.
Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að hagvöxtur taki við sér á næstu árum og að halli á ríkisfjármálum og í viðskiptum við útlönd muni haldast í skefjum. Horfurnar endurspegla einnig þá forsendu S&P að hvorki eldvirkni né spenna í alþjóðlegum viðskiptum muni hafa veruleg viðvarandi neikvæð áhrif á efnahagsstarfsemi, ríkisfjármál eða greiðslujöfnuð. Álútflutningur Íslands fer að mestu á evrópska markaði, sem dregur að hluta úr áhættu tengdri hærri tollum til Bandaríkjanna.
Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað ef opinber fjármál landsins styrkjast umtalsvert meira en S&P gerir ráð fyrir. Einkunnin gæti einnig hækkað ef S&P telja að aukin fjölbreytni gerði hagkerfið ónæmara fyrir ytri áföllum á sama tíma og núverandi spenna í alþjóðaviðskiptum minnkaði.
Lánshæfiseinkunnin gæti lækkað ef afkoma ríkisfjármála eða greiðslujöfnuður reyndust verulega lakari en S&P gerir ráð fyrir. Það gæti til dæmis gerst ef viðvarandi eldvirkni raskaði umsvifum í ferðaþjónustu og hamlaði hagvexti; eða ef Ísland yrði fyrir meiri áhrifum af spennu í alþjóðaviðskiptum eða yrði að auka verulega útgjöld til varnarmála.
Nánari upplýsingar á www.fjr.is
S&P staðfestir A+/A-1 lánshæfiseinkunnir Íslands með stöðugum horfum
Published 2 måneder siden
Sep 5, 2025 at 8:44 PM
Positive
Auto