Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-júní 2025 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 11. september.
Samantekinn árshlutareikningur A- og B-hluta
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð um 5,1 ma.kr. sem var 4,7 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2024. Rekstrarniðurstaða var 1,6 ma.kr. betri en áætlað var. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 26,9 ma.kr. sem var um 1,4 ma.kr. lægri en á fyrri helmingi ársins 2024. EBITDA í hlutfalli af tekjum var 18,5% og lækkar um 2,6%-stig samanborið við tímabilið janúar-júní 2024. Vegur áfallin gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar R-deildar Brúar lífeyrissjóðs á tímabilinu þungt sem er 3,9 ma.kr. hærri en á sama tímabili á síðasta ári. Matsbreyting fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum hefur jákvæð áhrif á niðurstöður sem var 3,3 ma.kr. yfir fjárhagsáætlun.
Fjármagnsgjöld (nettó) námu 14,1 ma.kr. eða 0,9 ma.kr. lægri á fyrri hluta þessa árs en þess síðasta. Vísitala neysluverðs hefur hækkað meira frá áramótum en áætlað var eða um 2,5% í stað 1,9%. Álverð hækkaði um 1,8% frá ársbyrjun til loka júní.
Veltufé frá rekstri nam 19,3 ma.kr. eða 13,2% í hlutfalli af tekjum og lækkaði um 2,3%-stig miðað við sama tímabil 2024.
Handbært fé nam 38,4 ma.kr. í lok tímabils. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 22,5 ma.kr., greidd gatnagerðagjöld og seldur byggingarréttur námu 2,2 ma.kr. Lántaka og ný stofnframlög námu 23,3 ma.kr. á tímabilinu og afborganir lána og leiguskulda námu 16,7 ma.kr.
Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 30. júní 2025 námu 995 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum námu 545 ma.kr. Eigið fé nam 450 ma.kr. en þar af nam hlutdeild minnihluta 18 ma.kr. Eiginfjárhlutfall A- og B-hluta í lok tímabils nam 45,2%.
A-hluti
Rekstrarniðurstaða A-hluta var í jafnvægi á tímabilinu eða -47 m.kr. sem var 243 m.kr. undir ásama tímabili 2024. Grunnreksturinn, þ.e. rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var jákvæð um 3,3 ma.kr. EBITDA var um 592 m.kr. lægri en gert var ráð fyrir í áætlun. Vegur áfallin gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar R-deildar Brúar lífeyrissjóðs á tímabilinu þungt sem nemur 5 ma.kr. sem er 3,7 ma.kr. hærri en á sama tímabili á síðasta ári og 3,2 ma.kr. hærra en samkvæmt áætlun tímabilsins.
Rekstur tímabilsins einkennist af sveiflum í bæði tekjum og gjöldum. Launaútgjöld voru umfram upprunalegar áætlanir og gætir einkum áhrifa nýs kjarasamnings við Kennarasamband Íslands. Áhrif kjarasamningsbundinna launahækkana koma fram í gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar R-deildar Brúar lífeyrissjóðs sem er nú metin umtalsvert hærri en upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir. Þar sem megin þungi launahækkana er þegar kominn fram er skuldbindingin áfallin og gjaldfærð á tímabilinu. Á móti kemur að útsvarstekjur hafa verið sterkari en áætlað var, auk þess sem sala eigna er umfram upprunalegar áætlanir. Gerður var viðauki við fjárhagsáætlun í júní sl. þar sem tekist er á við þessi áhrif að hluta til.
Fjármagnstekjur (nettó) námu 1,6 ma.kr. eða á pari við áætlun. Arður af eignarhlutum nam 7,0 ma.kr. og voru 400 m.kr. umfram áætlun en vaxtagjöld og verðbætur námu 5,9 ma.kr. og voru 516 m.kr. hærri en það sem gert var ráð fyrir.
Veltufé frá rekstri nam 10,4 ma.kr. og var 10% í hlutfalli af tekjum tímabilsins.
Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 7,2 ma.kr. Greidd gatnagerðagjöld og sala byggingarréttar námu 2,2 ma.kr. Lántaka langtímalána tímabilsins nam 5,6 ma.kr. Afborganir lána og leiguskulda námu 4,3 ma.kr.
Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi 30. júní 2025 námu samtals 305 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 216 ma.kr. Eigið fé nam 88,6 ma.kr. Eiginfjárhlutfall nam 29%.
***
Talsverð óvissa er í efnahagsumhverfi borgarinnar. Stærstu áhættur eru tengdar áhrifum verðbólgu á vaxtastig, gengis krónunnar og óvissu á alþjóðavettvangi. Verðbólga hefur reynst þrálát og hefur Seðlabankinn viðhaldið háum stýrivöxtum til að hemja verðbólgu og draga úr eftirspurnarþrýstingi. Hátt vaxtastig hefur aukið við fjármagnskostnað borgarinnar, en getur jafnframt aukið kostnað borgarinnar í gegnum neikvæð áhrif þess á skuldug heimili og fyrirtæki. Raungengi krónunnar hefur styrkst verulega það sem af er ári, um 7%, en það endurspeglar bæði hraða styrkingu krónunnar og hátt innlent verðlag. Þá eru blikur á lofti í alþjóðlegum efnahagsmálum, einkum vegna viðskiptadeilna og stríðsátaka. Óvissa er um hvaða áhrif þessir þættir muni hafa á innlent hagkerfi.
Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna reksturs á sérhæfðri þjónustu við börn með fjölþættan vanda kom til framkvæmda frá og með 1. júní síðastliðnum og felur í sér að ríkið tekur yfir ábyrgð og framkvæmd á þjónustunni. Samkomulag hefur einnig verið gert um að fella niður kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ennþá vantar upp á fulla fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks til framtíðar samanber skýrslu starfshóps ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu málaflokksins frá september 2024.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025‐2029 sem samþykkt var þann 3. desember sl. eru áfram gerðar ríkar kröfur um aðhald í rekstri. Fjárhagsáætlunin byggir á grunni fjármálastefnu Reykjavíkurborgar 2023‐2027 með skýrum áherslum og markmiðum sem fylgt hefur verið fast eftir. Mælikvarðar fjármálastefnunnar fyrir A‐hluta sýna hægfara bata og gert er ráð fyrir að búið verði að ná markmiðum í fjárhagsáætlun ársins.
Reykjavík, 11. september 2025.
Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
[email protected]
Viðhengi
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - júní 2025Skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs með árshlutareikningi janúar - júní 2025
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - júní 2025
Published 1 måned siden
Sep 11, 2025 at 1:00 PM
Neutral
Auto